Íslandsbanki var formlega skráður á aðalmark kauphallarinnar í morgun og var mikill hasar með bréfin á fyrsta degi. Hlutabréfagengi bankans endaði í 94,6 krónum á hlut sem er um 20% yfir útboðsgengingu. Áður hefur Viðskiptablaðið fjallað um utanþingsviðskipti með bréf bankans fyrir skráningu á markað en gengi þeirra viðskipta svipaði til núverandi hlutabréfagengis bankans.

Veltan með bréf bankans nam um 5,4 milljörðum króna sem samsvarar um 10% af upphæðinni sem var í boði í frumútboði bankans. Einhver hluti viðskiptana átti sér þó stað áður en bankinn fór formlega á markað í morgun. Þá var 66% af veltu dagsins með bréf Íslandsbanka en heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam um 8,2 milljörðum.

Af öðrum hækkunum ber helst að nefna Eimskip sem hækkaði um 3,2% í hálfs milljarðs krónu veltu, Brim sem hækkaði um 2,8% í 29 milljóna veltu og Haga sem hækkuðu um 2,5% í 416 milljóna veltu.

Á hinum enda kauphallarinnar lækkaði Icelandair um 3,8% í 228 milljóna króna veltu. Þá lækkaði Arion næst mest, um 1,4% í 408 milljóna króna veltu. Arion banki hefur aðeins verið að missa dampinn eftir að hafa náð sögulegum hæðum í síðustu viku.

Fyrir viku síðan, 15. júní, nam hlutabréfagengi bankans 148,5 krónum en það hefur lækkað um 3% síðan og stendur nú í 144 krónum. Enginn skal þó örvænta þar sem að á ársgrundvelli hafa bréfin hækkað um 122%.