Sérfræðingahópur um niðurfellingar skulda velti ekki fyrir sér tekjuöflun ríkissjóðs í málinu eftir því sem kemur fram á mbl.is. Þar er rætt við Sigurð Hannesson, formann hópsins, sem segir að hópurinn hafi gefið sér ákveðnar forsendur um fjármögnun verkefnisins þannig að það væri fullfjármagnað.

„Það kemur aðeins ein tillaga frá hópnum. Við skoðuðum tugi sviðsmynda. Fimm voru skoðaðar alla leið,“ segir Sigurður meðal annars.

Endanleg ákvörðun um tillöguna var ekki tekin fyrr en klukkan fimm í gærmorgun eftir 15 klukkustunda langan fund sérfræðingahópsins. Nokkur frumvörp þarf að vinna vegna tillagnanna. „Það þarf að vinna nokkur frumvörp út frá tillögum hópsins. Einhver geta komið fram tiltölulega fljótlega en önnur mun taka einhverja mánuði að vinna,“ segir Sigurður.