Velta með íbúðabréf og ríkisbréf var samanlagt 55,8 milljarðar króna. í gær og því er þetta þriðji dagurinn þar sem veltumet er slegið, að sögn greiningardeildar Glitnis.  Dagurinn í dag fer kröftuglega af stað, segir greiningardeildin, með mikilli veltu og kröfuhækkun á íbúðabréfum og styttri flokkum ríkisbréfa.

Af veltunni í gær voru 36,4 milljarðar króna með íbúðabréf, sem einnig er veltumet. Mikil velta var einnig með ríkisbréf eða 19,5 milljarðar króna, sem er mikil velta í sögulegu samhengi, bendir greiningardeildin á, og þriðji mesti veltudagur ríkisbréfa.

“Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur lækkað um 40-66 punkta það sem af er árinu sem þýðir 0,3%-3,0% verðhækkun bréfanna. Þetta er þó verðhækkun umfram það sem samrýmist öðrum vaxtaberandi eignum og sem dæmi er krafa RIKB08 1212, sem er með líftíma nálægt einu ári, nálægt 13% sem er töluvert undir vöxtum á vaxtaskiptasamningum til eins árs sem eru nú tæplega 14%. Hér er þó vert að hafa í huga að vaxtaferill skiptasamninga hefur lækkað um 50 punkta til eins árs og um 40 punkta til 5 ára,” segir greiningardeildin.

Kröfulækkun íbúðabréfa hefur einnig verið mikil og það sem af er ári hefur hún leitt til 1,8%-5,4% verðhækkunar íbúðabréfa sem er sjaldséð hreyfing á svo skömmum tíma á skuldabréfamarkaði. Nánar er fjallað um kröfulækkun íbúðabréfa í frétt um Íbúðalánasjóð, að sögn greiningardeildarinnar.