Veitingahúsakeðjurnar FoodCo og Gleðipinnar sameinuðust fyrr á árinu undir nafni Gleðipinna. Árið 2019 högnuðust Gleðipinnar um 39 milljónir króna en á sama tímabili nam tap FoodCo 216 milljónum. Gleðipinnar veltu 1,7 milljörðum á síðasta ári en FoodCo tæplega 3 milljörðum.

Eignir Gleðipinna námu 258 milljónum í lok árs en eignir FoodCo námu á sama tíma 1,4 milljörðum. Eigið fé Gleðipinna nam ríflega 99 milljónum og eigið fé FoodCo 372 milljónum. Launakostnaður Gleðipinna nam 685 milljónum en 89 störfuðu að jafnaði hjá félaginu. Umrædd gjöld námu 1,4 milljörðum hjá FoodCo og störfuðu að jafnaði 200 hjá félaginu.

Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna félaganna í byrjun febrúar á þessu ári og kom m.a. fram í skýrslu eftirlitsins að samanlögð hlutdeild veitingahúsakeðjanna næmi um 10-15% af heildarveltu veitingageirans á höfuðborgarsvæðinu, miðað við ákveðnar forsendur, árið 2018.