Deloitte hefur gefið út sína árlegu skýrslu um fjármál knattspyrnuheimsins. Í henni kemur fram að heildartekjur 5 stærstu deilda Evrópu hafi í fyrsta sinn farið yfir 7 milljarða evra sem samsvarar rúmum 803 milljörðum íslenskra króna.

Velta Evrópuboltans var um 1.561 milljarður króna á tímabilinu 2006/07 sem er um 115 milljarða króna aukning frá tímabilinu áður.

Þessa aukningu má að mestu rekja til nýs sjónvarpssamnings sem gerður var í Englandi fyrir tímabilið. Enska úrvalsdeildin stendur öðrum deildum framar hvað varðar tekjur og voru tekjur liðanna í ensku úrvalsdeildinni um 264 milljarðar króna.

Tekjubilið milli ensku úrvaldsdeildarinnar og þeirrar þýsku, sem er í öðru sæti, var rúmlega 103 milljarðar króna og telja sérfræðingar Deloitte að bilið muni breikka enn frekar á næsta keppnistímabili. Ítalska deildin sem áður vermdi 2. sætið er nú í 4. sæti og má þá breytingu helst rekja til þess tekjutaps sem átti sér stað þegar Juventus fór niður um deild. Baráttan um 2. sætið mun harðna nú þegar Juventus er komið aftur í efstu deild.

Að áliti Deloitte er lykillinn að góðum og hagkvæmum rekstri knattspyrnuliðs að hafa hemil á kostnaðarhliðinni.

Það sem vegur þyngst þar er hlutfall launa og tekna, en ljóst er að liðin í 5 stærstu deildunum hafa náð jafnvægi hvað það varðar þar sem laun eru rúm 60% af tekjum félaganna. Það sem vekur athygli er að þýska deildin skýst í fyrsta sæti upp fyrir þá ensku hvað varðar arðsemi, en þar er hlutfall launa af tekjum lægst.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .