*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 16. janúar 2018 09:12

Veltuaukning í mannvirkjagerð nam 19,3%

Velta eykst mikið í virðisaukaskattskyldri starfsemi milli ára, eða 8,1% í september og október, en 2,4% ef horft til 12 mánaða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan lyfjaframleiðslu, starfsemi ferðaskrifstofa og farþegaflutninga á vegum, var 716 milljarðar króna í september og október 2017 sem er 8,1% hækkun miðað við sama tímabil árið 2016. Veltan jókst um 2,4% á tímabilinu nóvember 2016 til október 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar á undan að því er Hagstofan greinir frá. 

Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og er nauðsynlegt að taka tillit til þess þegar velta frá og með 2016 er borin saman við fyrri ár. Mest breyting var í veltu í flokki byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugreftri og vinnslu hráefna úr jörðu, eða 19,3%. 

Næst mesta breytingin var svo í flokki heild- og umboðsverslunar með fisk, eða minnkun um 18,6%. Einnig var minnkun í flokki fiskveiða, fiskeldis og vinnslu sjávarafurða, eða um 14,1%.

Aðrir flokkar sem hækkuðu töluvert var Olíuverslun eða um 11,3%, framleiðsla málma sem hækkaði um 7,5%, Sala og viðhald vélknúinna ökutækja sem hækkaði um 6,3% og smásala sem hækkaði um 5,8%.