Nú þegar helmingur ársins er liðinn er veltan á árinu orðin 4.290 milljarðar og er það 31% meiri velta en á síðari hluta síðasta árs, að því er fram kemur í frétt frá Kauphöllinni.

Eins og fram hefur komið hefur verið gríðarleg velta með skuldabréf og er hún 80% af heildarveltu ársins.

Af skráðum skuldabréfum var RIKB 08 1212 veltumestur í júni með  96 milljarða og lækkaði krafa flokksins um 96 pkt. Það sem af er ári eru þrír veltumestu flokkarnir HFF150644 með 485 milljarða (ávöxt.kr.br.:-71 pkt.), HFF150224  með 399 milljarða (-139 pkt.) og HFF150914 með 378 (-203 pkt.).

Þrátt fyrir mikinn samdrátt í veltu með hlutabréf hefur veltan í tilboðabókinni haldið sínu nokkuð vel, segir í fréttinni.   Í síðasta mánuði var mest viðskipti með bréf Kaupþings fyrir 35,3 milljarða, með bréf Landsbankans fyrir 22,4 milljarða og með bréf Glitnis fyrir 10,8 milljarða.

Úrvalsvísitalan lækkaði um  7,8% í mánuðinum og stóð í 4.377,29 stigum í lok mánaðarins.  Frá áramótum hefur vísitalan lækkað um 30,7% og um 47,25% sé litið til síðustu 12 mánaða en hæst náði vísitalan í dagslok 18. júlí á síðasta ári (9.016,5 stig).

OMXI5YI skuldabréfavísitalan hækkaði um 2% og mest í mánuðinum og hefur því hækkað um 19,5% frá áramótum. OMXI5YNI lækkaði mest í mánuðinum, um 1,5% (hækkun um 4,5% frá áramótum). Breyting OMXI10YI í júní var 1,9% (því 20,8% frá áramótum), OMXI1YNI 0,03% (7,4%) og OMXI3MNI 1,3% (6,9%).

Kaupþing var með mestu markaðshlutdeildina með hlutabréf í mánuðinum 38,4% (29,9% það sem af er ári), þá kom Landsbankinn með 22,7% (19,2% það sem af er ári) og þá Glitnir með 14,5% (26,2% það sem af er ári).

Á skuldabréfamarkaðnum var Landsbankinn með mestu hlutdeildina í júní 23,6% (22,5% það sem af er ári), fast á eftir fylgir Glitnir með 20,9% (17,5%) og þriðju mestu hlutdeildina hafði Kaupþing eða 15,9% (24,2%).