Heildarviðskipti með hlutabréf námu 2061 milljónum í ágúst eða 94 milljónum á dag. Þessu til samanburðar nam veltan með hlutabréf í júlí 1300 milljónum eða 62 milljónum á dag. Mest voru viðskipti með bréf Marels 1306 milljónir, bréf Icelandair 625 milljónir, og bréf Össurar 48 milljónir. Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 5,8% milli mánaða og stendur nú í 929 stigum.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 259 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar til 11,8 milljarða veltu á dag, samanborið við 8,8 milljarða veltu á dag í júlímánuði. Mest voru viðskipti með ríkisbréf, 188 milljarðar, en viðskipti með íbúðarbréf námu 64 milljörðum.

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs: „Skuldabréfaviðskipti hafa verið með mesta móti í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans um miðjan ágúst en hún kom mörgum markaðsaðilum í opna skjöldu. Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum hefur einnig ýtt undir lífleg skoðanaskipti á markaðnum. Þá var verðbólga undir væntingum í ágúst.“

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 31,2% (70,3% á árinu), MP banki með 29,2% (6,7% á árinu), og Saga fjárfestingarbanki með 11,8% (4,6% á árinu). MP banki var umsvifamestur á skuldabréfamarkaði með 25,2% hlutdeild (25% á árinu), Íslandsbanki með 23,3% (24% á árinu) og Landsbankinn með 22,2% (20% á árinu).