Mikil velta hefur verið á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði á árinu og hefur hvert veltumetið á fætur öðru fallið eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans í dag. Samkvæmt viðskiptayfirliti Kauphallar Íslands voru viðskipti í kauphöllinni 1.515 á fyrstu þremur fjórðungum ársins og hafa aldrei verið fleiri. Heildarvelta hlutabréfa á árinu nemur 465 mö.kr. sem er 24% aukning frá sama tíma í fyrra. Síðastliðinn september var veltumesti mánuður frá upphafi og var veltan 99 ma.kr. Veltuhæsti dagur frá upphafi var einnig í september, nánar tiltekið þann 30. september, þegar heildarvelta hlutabréfa nam 33 mö.kr. en þessa miklu veltu má rekja til eignabreytinga á Íslandsbanka. Meðalvelta á dag var 2,5 ma.kr. það sem af er ári en til samanburðar var meðalvelta 2,0 ma.kr. á dag á sama tímabili í fyrra.

Það sem af er ári er veltuaukning á skuldabréfamarkaði 31% miðað við sama tímabil í fyrra, en heildarvelta með skuldabréf og víxla nemur 1.050 mö.kr. á árinu. Meðalvelta var 5,6 ma.kr. á dag fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins en meðalveltan var 4,4 ma.kr. á dag á sama tímabili í fyrra. Mesta dagsvelta fyrstu níu mánuði ársins var þann 10.júní þegar veltan nam 19,5 mö.kr. en mesta dagsvelta þriðja ársfjórðuns var þann 24.ágúst þegar veltan var 17,1 ma.kr. eins og segir í Vegvísi Landsbankans.