Veltumet var slegið á skuldabréfamarkaði í gær og nam veltan rúmlega 42,5 milljörðum króna, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

"Samhliða lækkaði ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa um 8-15 punkta og óverðtryggðra bréfa um 39-91. Þessi áköfu viðskipti endurspegla án efa breyttar vaxtavæntingar markaðarins um hraðara vaxtalækkunarferli hjá Seðlabanka Íslands, sökum þess að íslenskt efnahagslíf muni nú kólna hraðar en áður var gert ráð fyrir.

Ef til vill má hér greina áhrif af nýjustu tölum um veltu á fasteignamarkaði, sem birtust undir lok s.l. föstudags, sem sýna að viðskipti á fasteignamarkaði eru að dragast fremur hratt saman. Snögg kólnun á fasteignamarkaði er einmitt sá þáttur sem getur gert hratt vaxtalækkunarferli að veruleika þar sem fasteignaverð hefur um fimmtungsvægi í vísitölu neysluverðs og íbúðaverð er einn af megin áhrifaþáttum fyrir einkaneyslu," segir greiningardeildin.

Janframt má leiða að því líkur að fjárfestar séu farnir að leita frá hlutabréfum yfir í skuldabréf þar sem hlutabréfamarkaður hefur gefið töluvert eftir á síðustu dögum, að sögn greiningardeildarinnar.