Velta á hlutabréfamarkaði í júní nam 917 milljónum króna og dróst saman um fjórung frá sama mánuði í fyrra. Júní var veltuminnsti mánuður ársins á hlutabréfamarkaði. IFS Greining fjallar um hlutabréfamarkaðinn í dag.

Mest velta var með bréf Icelandair Group, sem hækkuðu um 4,6% í 423 milljóna króna viðskiptum. Samtals voru viðskipti með bréf Icelandair og Marels yfir 90% af heildarveltu. „Þar sem fjárfestingarkostir eru af skornum skammti í landi gjaldeyrishafta nýtur félag eins og Icelandair Group, sem er verðlagt hagstætt í samanburði við önnur flugfélag, góðs af því. Reyndar hafa neikvæðar fréttir haft lítil áhrif á hlutabréfin, hvort sem um er að ræða eldgos eða yfirvinnubann flugmanna. Fjárfestar virðast því vera bjartsýnir á reksturinn en nú fara í hönd tveir lang mikilvægustu mánuðir ársins. Þeir fjárfestar sem tóku þátt í hlutafjárútboði félagsins á síðasta ári hafa náð ríkulegri ávöxtun en gengið hefur tvöfaldast frá útboðsgengi,“ segir IFS Greining.    

Það sem af er ári hefur markaðurinn þó glæðst nokkuð, en velta á fyrstu sex mánuðum nemur 41,4 milljörðum króna. Það er 260% aukning milli ára.