Gengi hlutabréfa í Kauphöllinni hefur hreyfst í nánum takti við markaði erlendis síðan ljóst var að meirihluti kjósenda í Bretlandi kaus að ganga úr Evrópusambandinu. Úrvalsvísitalan lækkaði um samtals 7 prósent á föstudag og mánudag en hafði síðan þá hækkað um 3 prósent við lok viðskipta í gær.

Útflutningsfyrirtækin í Kauphöllinni eiga mismikið undir viðskiptum við Bretland. Í fyrra voru 7% af sölu Icelandair Group til Bretlands og 9,2% af veltu HB Granda. Í báðum tilfellum hækkaði þetta hlutfall þó frá árinu 2014.

Í fyrra var hlutdeild breska pundsins í útflutningi Íslands 7,5%, en 4,1% í tilfelli innflutnings. Veiking pundsins ætti samkvæmt þessu að hafa neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð Íslands að öllu öðru óbreyttu.

Yfirskot

„Þetta veltur á ferðamönnum og fiski, það er stóra myndin,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, um áhrif útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á Ísland. Bretland er á meðal stærstu útflutningsmarkaða Íslands, bæði hvað varðar ferðamennsku og sjávarafurðir.

Sveinn segir að það veki athygli hversu mörg félög í Kauphöllinni hafi fylgt þróuninni erlendis.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .