Á yfirborðinu virðist allt með kyrrum kjörum á hlutabréfamörkuðum þessa dagana en Financial Times greinir frá því að undir niðri hafi miklar sviptingar átt sér stað. Þrátt fyrir að FTSE heimsvístalan (e. All-World equity index) hafi hækkað um nær 3% það sem af er septembermánuði hafi mikil sala verið í vinsælum hlutabréfum í vikunni. Svo mikil að tala megi um hrun sem miðlarar hafa nú þegar gefið nafnið „stundar hrunið” (e.momentum crash).

Nafnið vísar til þess að bréfin eru í félögum sem hafi um stund notið mikillar hylli (e. strong-momentum stocks), Hrunið hafi vakið minningar um svokallaða „quant quake“ sem skók tölvudrifin fjárfestingafélög árið 2007 og reyndist vísbending um undirliggjandi vanda sem síðar kom í ljós. Ástæðan fyrir því að hrunsins hafi ekki gætt í samsvarandi falli vísitalna er sú að salan hefur verið veginn upp af miklum fjárfestingum í rótgrónum félögum á traustum mörkuðum (e. value stock). Þetta eru oft bréf sem fjárfestar líta framhjá sökum þess að vaxtarmöguleikar þeirra séu takmarkaðar í samanburði við ný og spennandi sprotafyrirtæki. Þannig hafi orðið mikill viðsnúningur á markaðinum síðustu daga þar sem heitustu bréf ársins hafi fallið mikið í verði á meðan hægvaxtabréfin hafi hækkað.

„Þetta er sjaldgæft og líkindin við hrunið 2007 eru uggvænleg,” hefur Financial Times eftir greinanda á markaði. „Hrunið þá reyndist vísbending um miklu stærri grundvallarvanda og þetta hrun gæti einnig verið til marks um stærri vandamál.“