Fyrr í vikunni bárust fréttir um kaup Íslenskra fjallaleiðsögumanna og fjárfestingarfélagsins Eldeyjar á Arcanum ferðaþjónustu og í byrjun mánaðarins bárust fréttir þess efnis að Iceland Travel, félag í eigu Icelandair Group, og Allrahanda GL, sem starfar hér á landi undir merkjum Gray Line hefðu sameinast. Einnig má nefna kaup Arctic Adventures á Extreme Iceland frá í því lok júnímánaðar sem dæmi um auknar sameiningar í ferðaþjónustu hér á landi.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar sem er fjárfestingarfélag í afþreyingartengdri ferðaþjónustu, segir að skilyrði hafi myndast fyrir meiri samþjöppun í geiranum.

„Ég held að nú sé ákveðinn vendipunktur í ferðaþjónustunni. Við erum búin að eiga nokkur góð ár sem hafa verið tiltölulega áreynslulaus að því leyti að það hefur verið tiltölulega auðvelt að stofna fyrirtæki og koma þeim á legg og hafa margir eflaust talið sig vera komna vel á veg,“ segir Hrönn sem tekur þó fram að hún vilji alls ekki gera lítið úr því starfi sem gert hefur verið.

„Hins vegar er það þannig að ferðaþjónustan hefur farið í gegnum marga skafla og marga vendipunkta, og þegar það gerist er óhjákvæmilegt að ýmsir, sérstaklega minni aðilar, sjái sæng sína útbreidda og átti sig á að það sé hagkvæmara að búa til stærri og sterkari einingar.“

Auknar álögur draga úr samkeppnishæfni

„Það gleymist oft í umræðunni um auknar álögur og skipulag í ferðaþjónustunni, sérstaklega hjá opinberum aðilum, að Ísland á í harðri samkeppni við áfangastaði sem gefa Íslandi ekkert eftir í afþreyingu eða náttúru,“ segir Hrönn og nefnir Noreg, Grænland, Alaska og fleiri staði sem ferðalangar sem sækja eftir ákveðnum ævintýrum geta sótt til. Þó segir Hrönn fyrst og fremst hagkvæmnissjónarmið reka fyrirætlanir um sameiningar áfram.

„Fyrirtækin eru að skoða hvar hægt sé að ná fram mestu hagræðingunni í rekstri, enda búa ferðaþjónustufyrirtækin við ótryggt umhverfi. Styrking krónunnar hefur veruleg áhrif á kaupgetu þeirra sem koma til landsins en einnig vilja þeirra til að kaupa þjónustu,“ segir Hrönn sem bendir einnig á hvernig veik króna hafi haft öfug áhrif þegar sú staða var uppi.

„En það er vitað mál að eftir því sem krónan er sterkari, því minni eftirspurn er eftir dýrari afþreyingu, nema eitthvað annað gefi eftir á móti.“

Margir fá áfall eftir erfitt rekstrarár

Hrönn segir síðasta ár langt frá því að hafa verið gott rekstrarár í íslenskri ferðaþjónustu.

„Á árinu tók ferðaþjónustan á sig virðisaukaskatt í greinum sem ekki báru hann áður, mjög miklar launahækkanir og síðan byrjaði krónan að styrkjast jafnt og þétt. Á sama tíma eru samningar gerðir langt fram í tímann þannig að fyrirtækin fengu minna fyrir sína þjónustu en þau gerðu ráð fyrir og var afkoman víða mjög slök á árinu,“ segir Hrönn en hún segir þá þróun síst hafa gengið til baka og sama muni gilda um rekstrarárið 2017.

„Ég held að margir eigi eftir að fá ákveðið áfall þegar árið verður gert upp og er mín trú að það verði einhverjir sem hreinlega leggja upp laupana, og aðrir sem munu fara á fullt að leita að samstarfsaðilum eða einhverjum sameiningartækifærum.“

Fjárfestingarfélagið sem Hrönn stýrir, Eldey, var stofnað árið 2015 í þeim tilgangi að fjárfesta í íslenskri ferðaþjónustu en það er í stýringu Íslandssjóða. Fyrstu fjárfestingar félagsins voru í Norðursiglingu og Fontana, en síðan bættust Íslenskir fjallaleiðsögumenn í hópinn á síðasta ári.

Stærsta fjárfesting Eldeyjar

Nýtilkomin fjárfesting félagsins í Arcanum er sú stærsta í sögu félagsins frá upphafi. Spurð hvort Eldey sé sá aðili sem fyrirtækin ættu að leita fyrst til hlær hún við og segir félagið í það minnsta hafa puttann á púlsinum í þessum geira.

„Við erum svo lánsöm að hafa fjárfest í sterkustu og flottustu félögunum á markaðnum sem margir aðilar hafa verið spenntir að vinna með, en hvort um sig hafa Norðursigling og Íslenskir fjallaleiðsögumenn yfir 25 ára rekstrarsögu, þar sem þau hafa margsinnis farið í gegnum svona dýfur, og þekkja og kunna að taka á aðstæðunum,“ segir Hrönn sem segir frekari uppkaup vera í kortunum.

„Fjárfestingar Eldeyjar miðast út frá því hvar við getum séð fyrir okkur sameiningar og samlegð á milli fyrirtækja, enda fór félagið af stað með því að fara inn í félög með þekkta rekstrarsögu sem gætu svo tekið inn smærri félög til að tryggja betri arðsemi í rekstrinum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .