Orkumálaráðherra Venesúela, Rafael Ramirez, greindi frá því í gær að ríkisstjórn landsins hefði samþykkt að selja bensín til Írans, að ósk þarlendra stjórnvalda. Ramirez vildi hins vegar ekkert segja til um hversu mikið bensín Íranar hefðu óskað eftir því að kaupa af Venesúela.

Samkomulag Venesúela og Írans kemur í kjölfar þess að stjórnvöld í Teheran tóku þá óvinsælu ákvörðun að skammta almenningi bensín, en þrátt fyrir gríðarlegar olíuauðlindir þá flytja Íranar engu að síður inn um fjörutíu prósent af öllu því bensíni sem þeir nota.