Milljarðaveðmál Hugo Chavez með gulli og gegn Bandaríkjadal er að koma í höfuðið á venesúelska ríkinu núna þegar gullverð fer lækkandi.

Chavez sagði Venesúela þurfa að komast undan oki bandaríska dalsins og árið 2012 voru um 70% af gjaldeyrisforða landsins bundin í gulli og var hlutfallið ekki hærra hjá neinu nýmarkaðsríki og um 50 sinnum hærra en hjá nágrönnunum Kólumbíu og Brasilíu.

Undanfarinn áratug hefur þessi gullsöfnun skilað ríkissjóði um 400% ávöxtun en gull hefur lækkað um ein 25% það sem af er þessu ári og hefur gjaldeyrisforði seðlabanka Venesúela ekki verið minni í átta mánuði. Í frétt Bloomberg segir að fjárfestar hafi nú auknar áhyggjur af greiðslugetu venesúelska ríkisins. Ávöxtunarkrafa á venesúelsk dollarabréf hefur hækkað um 0,62 prósentustig og er nú 11,84%.