Jafnvel þó efnahagshrunið í Venesúela dýpki enn þá virðist vera sem landið komist enn eitt árið hjá því að lenda í greiðslufalli gagnvart erlendum skuldunautum sínum.

Fjármálastofnanir treysta á vilja þeirra til að lenda ekki í greiðslufalli

Er þetta mat fjármálastofnana eins og Aberdeen Asset Management og JPMorgan Chase & Co.

Síðustu tvö árin hafa fjármálastofnanir haft sérstakar gætur á landinu vegna hættu á greiðslufalli vegna lágs heimsmarkaðsvirðis á olíu, efnahagshruns og stjórnmálaóstöðugleika nú þegar kröfur um að forsetinn verði settur af herðast stöðugt.

Samt sem áður hefur Venesúela tekist að safna nægilegu fjármagni til að borga milljarða í vaxtagreiðslur, og virðist það ætla að takast einnig í ár.

Vilja forðast greiðslufall hvað sem það kostar

Ríkisolíufyrirtæki Venesúela þarf að greiða 4,1 milljarð Bandaríkjadala í vaxtagreiðslur af lánum sínum fyrir lok ársins.

„Við teljum að þeir hafi nægt fjármagn til að greiða“ þá 1,4 milljarða dali sem þeir eiga að greiða í október segir Anthony Simond, fjármálastjóri hjá Aberdeen Asset Management. Þó hann viðurkenni að þeir 2,7 milljarðar dala sem ríkisolíufyrirtækið PDVSA þarf að greiða í nóvember gæti orðið erfiðari viðureignar, segir hann að forsetinn Nicolas Maduro vilji „forðast greiðslufall hvað sem það kostar.“

Olíumálaráðherra landsins, Eulogio Del Pino, sem jafnframt er forstjóri PDVSA segir að fyrirtækið sé í viðræðum um að endurfjármagna þau skuldabréf fyrirtækisins sem renna út á næstu 18 mánuðum.

Versti hagvöxtur og verðbólga í heiminum

Tök Maduro forseta á stjórn landsins gætu minnkað vegna síaukinnar óánægju almennings nú þegar skortur eykst á öllu frá mat til lyfja. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að landsframleiðslan muni minnka um 10% á þessu ár, meðan verðbólgan muni fara fram úr 700%.

Þann 20. júlí síðastliðinn sagði Alejandro Werner, forstöðumaður deildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem sér um málefni vesturálfu, að Venesúela sé „með versta hagvöxt og verðbólgu í heiminum.“

Þrátt fyrir það er búist við að borgað verði af skuldum landsins, og það muni reyna að bíða af sér lágt olíuverð með því að minnka gullforða sinn og treysta á fjármögnun frá Kína.