Verð á útfluttum laxi frá Noregi hefur haldist lágt undanfarnar vikur segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Síðastliðna fjóra mánuði hefur kílóverð á frosnum laxaafurðum lækkað um 15% en um 10% á ferskum laxaafurðum. Útflutningsverðið virðist hafa náð lágmarki í byrjun nóvember en hefur síðan hækkað lítillega vegna mikillar eftirspurnar á helstu mörkuðum fyrir jólin. Noregur er stærsti framleiðandi af laxeldisafurðum í heiminum og í ár stefnir í að framleiðslan verði u.þ.b. 505 þús. tonn eða 43% af heildinni. Verðþróunin undanfarna mánuði hefur haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir norsku eldisfyrirtækin.

Fullvinnslufyrirtæki sem kaupa heilan og frosinn lax frá Noregi (t.d. SÍF) njóta hins vegar góðs af lágu verði á laxinum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka