Heimsmarkaðsverð á gulli fór yfir 500 Bandaríkjadali á únsu á þriðjudaginn í síðustu viku en það er í fyrsta skiptið í 18 ár sem það gerist. Verðið fór upp fyrir 500 dollara eftir mikil kaup japanskra fjárfesta en það gaf síðan eftir að markaðurinn í Asíu lokaði. Í frétt Financial Times kemur fram að verð á gulli hefur farið stöðugt hækkandi síðan 1999 og er sú hækkun orðinn lengsti samfelldi tími hækkunar síðan að verðið var gefið frjálst árið 1968.

Þessi nýlega hækkun gulls hefur komið á sama tíma og dollarinn hefur hækkað í tveggja ára hámark og olíuverð hefur fallið. Undir venjulegum kringumstæðum hefði þessi þróun dregið úr verði á gulli.

Hækkunin að undanförnu virðist drifin áfram af einkafjárfestum í Japan. "Lækkun jensins gagnvart dollar hefur ýtt mörgum japönskum fjárfestinum út í kaup á gulli," segir Tim Gardiner, forstjóri hjá Mitsui Global Precius Metals.

Gull fór upp í 502,3 dollara á meðan viðskipti voru opin í Asíu en féll niður í 498 dollara þegar viðskiptum var lokað í Evrópu en lokaði í 499 dollurum í New York.

Gull er einnig í langtímahámarki í myntum eins og evru, jeni og pundi.

"Sú staðreynd að verð á gulli féll niður fyrir 500 dollara svo skjótt eftir lokun markaða í Asíu endurspeglar þá staðreynd að verðið gæti átt erfitt með að fara upp fyrir verðbilið 500 til 503 dollara á únsu," sagði Martin Stokes, varaforstjóri hrávörudeildar JP Morgan.

Stokes segir að margir einkafjárfestar hafa fært sig yfir í gull í þeirri trú að seðlabankar muni kaupa meira gull. Fáir sérfræðingar á gullmarkaði trúa því hins vegar að seðlabankar muni kaupa gullið á svona háu verði.

Hækkun gullsins á þriðjudaginn kom á sama tíma og heimsmarkaðsverð á platínu fór yfir 1.000 dollara á únsu í fyrsta skiptið síðan 1980. En svipað var uppi á teningnum þar því verðið féll niður í 994 dollara við lokun markaða í Evrópu.