Verð á útfluttum laxi frá Noregi hefur nokkuð gefið eftir undanfarnar vikur eftir að hafa náð hámarki ársins fyrir um mánuði síðan. Verðið á laxinum nú er þó enn mjög hátt eða um 28 NOK pr. kíló. sem er um 31% hærra verð miðað við sama tíma í fyrra. Hækkunin frá áramótum er rétt ríflega 20%. Hæst hefur verðið farið í 30 NOK pr. kíló í ár. Ekki er búist við hækkunum á laxaverði á næstu vikum, flestir spá því að núverandi verð muni haldast lítið breytt á næstunni. Gengi hlutabréfa í skráðu norsku fiskeldisfélögunum hefur hækkað skarpt frá áramótum. Leröy hefur hækkað um 56%, Fjord um 41%, og Pan Fish um 11,4% frá áramótum.

Laxaframleiðendur í Noregi eru þeir stærstu í heiminum og kemur verðhækkunin síðastliðið ár sér illa fyrir fullvinnslufyrirtæki í Evrópu sem kaupa afurðir sínar frá Noregi. SÍF er eitt af þeim fyrirtækjum sem finnur fyrir þessu háa verði á laxi þar sem Labeyrie í Frakklandi kaupir m.a. lax frá Noregi og fullvinnur áfram.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.