Verð á laxi hækkaði lítillega á erlendum mörkuðum í síðustu viku, segir greiningardeild Glitnis.

?Laxaverðið lækkaði hratt í haust en hefur undanfarnar vikur sveiflast á nokkuð þröngu bili (26-29 NOK/kg). Laxaverðið frá Noregi var 33% lægra í síðustu viku (28,7 NOK/kg) miðað við verðið í lok júní (43,1 NOK/kg) þegar það náði hámarki," segir greiningardeildin.

Hún segir að Norðmenn séu stærstu einstöku framleiðendur á eldislaxi í heiminum og því er útflutningsverðið þaðan lýsandi fyrir heimsmarkaðsverð á laxi. Greiningardeildin telur verðið nú vel ásættanlegt fyrir framleiðendur þar sem framleiðslukostnaður þeirra er nálægt 18 NOK/kg.

?Flestar spár gera ráð fyrir auknu framboði af laxi frá framleiðendum á næsta ári sem ætti að öðru óbreyttu að þrýsta á verðið til lækkunar. Þó ber að taka fram að eftirspurn á mikilvægustu mörkuðum hefur verið mikil,? segir greiningardeildin.

Laxaverð hefur mikil áhrif á rekstur Alfesca þar sem dótturfyrirtæki þess, Labeyrie, Delpierre og Vensy eru stórir kaupendur á laxi, m.a. frá Noregi.

?Núverandi verð er ásættanlegt fyrir Alfesca. Undanfarnar vikur hafa dótturfélög Alfesca keypt mikið magn af laxi til að selja fyrir mikilvægasta sölutímabil félagsins, jólasöluna,? segir greiningardeildin.