Verð á norskum laxi hefur ekki verið jafn hátt í langan tíma, segir greiningardeild Landsbankans.

Á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten er aukin eftirspurn sögð stafa af hræðslu almennings við fuglaflensu, margir kjósi að borða lax í stað fuglakjöts.

Kílóverðið hefur hækkað verulega að undanförnu sökum mikillar eftirspurnar og stendur nú í kringum 30 norskum krónum, segir greiningardeildin.

Drjúgur hluti tekna Alfesca kemur frá sölu á reyktum laxi, einkum norskum, og þess vegna hefur hækkun á laxaverði iðulega neikvæð áhrif á framlegð félagsins, segir greiningardeild Landsbankans.

Haldi laxaverð áfram að hækka á næstu misserum, sem er ekki ólíklegt á meðan fuglaflensan nýtur athygli fjölmiðla, getur það haft umtalsverð áhrif á afkomu Alfesca á yfirstandandi rekstrartímabili.