Verð á útfluttum laxi frá Noregi hefur lækkað undanfarnar vikur. Síðastliðna þrjá mánuði hefur kílóverðið lækkað um ríflega 14% hvort sem um er að ræða frosinn eða ferskan lax. Kílóverð af frosnum laxi er nú 22,7 NOK en 20,1 NOK af ferskum. Þetta hefur slæmar afleiðingar í för með sér fyrir eldisfyrirtækin norsku. Hins vegar eru þetta jákvæð tíðindi fyrir fullvinnslufyrirtæki sem kaupa laxinn frá Noregi.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er vakin athygli á því að SÍF ætti að njóta góðs af þessari verðlækkun á norskum eldislaxi þar sem Labeyrie í Frakklandi kaupir mikið magn af heilum laxi frá Noregi og fullvinnur áfram.