Án þess að ég hafi á hraðbergi hve kostnaðarauki fyrirtækja í landinu er mikill vegna hækkunar á olíu, veit ég að hann er gríðarlegur,“ segir Stefán Karl Segatta, fjármálastjóri hjá Skeljungi.

„Ég hef verið að skoða þróunina í notkun á eldsneyti í verktakaatarfsemi undanfarið og ekki orðið var við samdrátt enn sem komið er, en það kemur klárlega að honum. Að mínu mati verður forvitnilegt að fylgjast með því sem gerist í sumar og haust. Sumarið er hábjargræðistíminn hjá verktökum og starfsemin á fullu. Hættan er sú að höggið komi svo í haust þegar dregur úr. Aðilar í ferðaþjónustu semja flestir fyrir fram og því er erfitt fyrir þá að bregðast við öllum þessum hækkunum og staðan hjá flugfélögunum er klárlega erfið.

Á móti kemur að einhverjir fá greitt í evrum þannig að það bætir tekjumissinn að einhverju leyti á meðan krónan er svona veik. Hvað sjávarútveginn varðar veit ég að hækkun á olíuverði hefur komið illa við mörg fyrirtæki. Einhver fyrirtæki hafa brugðist við með þeim hætti að breyta yfir í ódýrari tegundir af olíu, þ.e. farið úr gasolíu yfir í svartolíu. Hækkunin kemur því alls staðar niður og ástandið eins og það er í dag er langt frá því að vera kjöraðstæður fyrir nokkurn sem er í fyrirtækjarekstri. Til dæmis hækkaði tonnið af dísilolíu á einum degi fyrir viku um 124 dollara tonnið en fyrir um tíu árum kostaði tonnið af dísilolíu um 120 dollara tonnið,“ segir Stefán.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .