Verð á sjávarafurðum lækkaði um 0,8% í mars frá mánuðinum á undan mælt í erlendri mynt (SDR). Afurðaverðið í erlendri mynd er þó mjög hátt í sögulegu ljósi og mælist nú 9,8% hærra en fyrir ári síðan. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar frá því í morgun. Verð sjávarafurða mælt í íslenskum krónum lækkaði hins vegar mun meira, eða um 3,5% í mars frá mánuðinum á undan vegna styrkingar krónunnar. Síðastliðið ár hefur afurðaverðið í íslenskum krónum lækkað um 4%. Gengishækkun krónunnar hefur því étið upp verðhækkunina síðustu tólf mánuði og gott betur segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Lækkun á verði sjávarafurða nú veikir stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Fyrir eru ytri skilyrðin enn óhagstæð, krónan stendur sterk og olíuverð er hátt. Samt sem áður er afurðaverðið enn mjög hátt þegar verðþróun síðustu ár er skoðuð," segir í Morgunkorninu.

Verð á mjöli og lýsi lækkaði um 1,1% í mars miðað við mánuðinn á undan mælt í erlendri mynt. Verð sjófrystra botnfiskafurða hækkaði um 1,4% og hefur ekki mælst hærra síðan um mitt ár 2000.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.