Fram til þessa hafa menn litið á skuldatryggingaálag sem afar góðan ef ekki nær óskeikulan mælikvarða á það hvaða kjör fyrirtækjum myndu bjóðast í skuldabréfaútgáfum. Hugsanlega er það að byrja að breytast.

Vísbendingar, hóflegar þó, hafa að undanförnu verið að koma fram um að eitthvað sé hugsanlega farið að losna um tengslin á milli skuldatryggingaálags á banka og þeirra kjara sem bönkum myndu bjóðast ef þeir leituðu út á markaðinn með skuldabréfaútgáfur.

Enn er eingöngu um vísbendingar að ræða sem ekki hafa áhrif á stöðu íslensku bankanna að því er varðar mögulega fjármögnun eins og stendur, hvað svo sem seinna kann að verða. Að minnsta kosti fylgjast íslensku bankarnir grannt og kannski vongóðir með þróun mála.