Lokuðu hlutafjárútboði Mosaic Fashions til fagfjárfesta lauk í gær. Seldir voru 272 milljón hlutir á genginu 13,6 og nam söluverð því alls 3,7 mö.kr. Umframeftirspurn var í útboðinu og var verðið í efri mörkum þess verðbils sem var í boði segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Almennt útboð verður 6. til 10. júní en þá er áformað að selja hlutafé á sama verði fyrir alls um 1,2 ma.kr. Í það heila mun Mosaic þannig sækja um 4,9 ma.kr. á hlutabréfamarkaðinn.

Útboðin nema samtals um 13% af heildarhlutafé eftir hlutafjáraukningu. Samkvæmt því er verðmæti Mosaic um 39 ma.kr. en til viðbótar verða vaxtaberandi skuldir um 18 ma.kr. eftir endurfjármögnun og er heildarvirði (e. enterprise value) félagsins því um 57 ma.kr. Áformað er að skrá Mosaic á Aðallista Kauphallarinnar eftir að almenna hlutafjárútboðinu verður lokið og má búast við að skráningin verði seinni hluta júní. Mosaic verður áttunda verðmesta félagið í Kauphöllinni og hluti af Úrvalsvísitölunni.