Vísitala framleiðsluverð, sem mælir verð sem framleiðandi fær fyrir fullunna vöru sína, í ágúst 2010 var 184,9 stig og lækkaði um 0,9% frá júlí 2010. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir var 213,9 stig, sem er lækkun um 3,1% frá fyrri mánuði og vísitala fyrir stóriðju var 213,4 stig, lækkaði um 0,5%. Vísitalan fyrir matvæli lækkaði um 0,2% og vísitala fyrir annan iðnað hækkaði um 3,1% (0,4%). Þetta kemur fram í mælingu Hagstofu Íslands.

Vísitala framleiðsluverðs er afurðaverðsvísitala fyrir innlenda framleiðslu og mælir það verð sem framleiðandinn fær fyrir fullunna afurð sína. Kaupandinn er þá ýmist heildsali, smásali eða annar framleiðandi sem notar afurðirnar sem aðföng í sína framleiðslu. Vísitalan nær ekki yfir þjónustu heldur aðeins vöruframleiðslu.

Vísitala framleiðsluverðs fyrir vörur sem framleiddar voru og seldar innanlands hækkaði um 1,3% (0,3%) milli mánaða en vísitala fyrir útfluttar afurðir lækkaði um 1,5% (-1,2%).

Miðað við ágúst 2009 hefur vísitala framleiðsluverðs hækkað um 1,8% en verðvísitala sjávarafurða lækkað um 4,8%. Á sama tíma hefur verð á afurðum stóriðju hækkað um 11,5% en matvælaverð hefur hækkað um 1,1%.