Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, ætlar innan tveggja vikna að leggja fyrir breska þingið frumvarp sem kveður á um strangara regluverk fyrir fjármálafyrirtæki.

Darling lét þessi orð falla á ráðstefnu Verkamannaflokksins í Manchester í gær. Hann sagði nýju löggjöfina meðal annars miða að því að binda enda á þá „bónusmenningu” sem hefði augljóslega brenglað ákvarðanatöku stjórnenda í fjármálaheiminum.

Auk þess að lofa harðari reglum bar Darling í bætifláka fyrir þá ákvörðun stjórnarinnar að víkja samkeppnislögum til hliðar og heimila sameiningu HBOS og LIyods. Sagði Darling ákvörðunina hafa verið erfiða en rétta engu að síður.