Verð á sjávarafurðum hækkaði um 0,1% í febrúar frá mánuðinum á undan mælt í erlendri mynt (SDR). Afurðaverð í erlendri mynt er mjög hátt í sögulegu ljósi og hefur hækkað í níu mánuði í röð, er 9,3% hærra en það var fyrir ári síðan. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar frá því í morgun. Verð sjávarafurða mælt í íslenskum krónum lækkaði hins vegar um 1,3% í febrúar frá mánuðinum á undan vegna styrkingar krónunnar. Síðastliðið ár hefur afurðaverðið í íslenskum krónum hækkað um 0,4%.

Hækkun á gengi krónunnar hefur því étið upp stærstan hluta verðhækkunarinnar í erlendri mynt á síðastliðnum tólf mánuðum. Rekstrarskilyrði sjávarútvegsins eru því erfið við núverandi efnahagsaðstæður en krónan er þó sem stendur sterkari en staðist fær til lengdar og leiðrétting með lækkun á gengi krónunnar mun bæta stöðu sjávarútvegsins segir í Morgunpunktum Íslandsbanka.

Byggt á Morgunpunktum Íslandsbanka.