Tólf einstaklingar sem fengu sendan kafla úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem tengdist þeim hafa frest til klukkan 17 í dag til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Um er að ræða ráðherra, ráðuneytisstjóra og stjórnendur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Upphaflegi fresturinn var til 17. febrúar.

Sá kafli skýrslunnar, sem snýr að þessu fólki, tekur til skoðunar hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni.

„Að fengnum þessum athugasemdum mun nefndin fara yfir þær og ljúka vinnslu á skýrslu sinni til Alþingis en tímasetning og framhald á vinnu nefndarinnar að þessu leyti ræðst m.a. af efni þeirra athugasemda sem berast frá viðkomandi einstaklingum," sagði í tilkynningu frá rannsóknarnefndinni þegar fresturinn var framlengdur.