Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er verið að skoða útfærslu á því að herða á þeim gjaldeyrishöftum sem hér hafa ríkt síðan í nóvember. Ný útfærsla mun þannig hafa verið lögð fyrir fund ríkisstjórnar í morgun og verður hugsanlega kynnt aðilum vinnumarkaðarins í dag.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að krónan hefur veikst jafnt og þétt undanfarið og samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hefur orðið lúitilsháttar veiking í morgun, 20. daginn í röð.

Seðlabankinn hefur ekki gripið inn í markaðinn og vaxandi áhyggjur eru af þessari þróun. Því þykir ástæða til að herða á lögum þannig að gjaldeyrir skili sér inn til landsins en borið hefur á því að erlendir kaupendur fisks hafi geta keypt krónur á markaði erlendis.

28. nóvember sl. samþykkti Alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 sem byggja á viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. nóvember 2008. Með breytingu á lögum um gjaldeyrismál var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að takmarka tilteknar fjármagnshreyfingar sem ekki snerta viðskipti með vörur og þjónustu.