Í MP Molum MP Fjárfestingabanka er bent á að samsetning Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands (ICEX 15) breytist tvisvar á ári og gildir 6 mánuði í senn. Næst verður tilkynnt um nýja samsetningu í júní og tekur hún gildi frá 1. júlí. Vísitalan er samsett af 15 félögum sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar og eru þessi 15 félög valin í vísitöluna eftir ákveðnum reglum.

"Veltumestu félögin á Aðallista Kauphallarinnar fá stig samkvæmt ákveðinni aðferðafræði og koma 20 stigahæstu félögin til greina við val í vísitöluna. Af þessum 20 félögum eru það 15 stærstu félögin samkvæmt markaðsvirði leiðréttu fyrir floti sem valin eru í vísitöluna en þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett eru, m.a. um verðbil og að tilboð liggi fyrir í viðskiptakerfi Kauphallarinnar," segir í MP Molum.

Þar sem nú styttist í að tilkynnt verði um nýja samsetningu Úrvalsvísitölunnar er áhugavert að skoða þær breytingar sem kunna að verða á samsetningu hennar fyrir næsta tímabil. Samkvæmt könnun á veltu og floti félaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallar má skoða hvaða félög uppfylla skilyrði við val í vísitöluna og velta fyrir sér hvaða breytingar gætu orðið.

Nú þegar er ljóst að a.m.k. eitt félag mun fara úr vísitölunni þegar næsta samsetning tekur gildi. Um er að ræða Samherja þar sem yfirtökuskylda hefur myndast með félagið, en félög sem myndast hefur yfirtökuskylda á eru undanskilin við val í vísitöluna.

Við skoðun á verðbili 15 stærstu félaganna af þeim 20 sem koma til greina við val í vísitöluna kemur í ljós að þau uppfylla ekki öll skilyrði um verðbil. Ef félag meðal 15 stærstu uppfyllir ekki skilyrði um verðbil kemur það ekki til greina við val í vísitöluna og í stað þess kemur félag sem er í sæti 16-20 ef það stenst verðbilsskilyrðið. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa skilyrðis bendir flest til þess ekki verði aðrar breytingar á samsetningu vísitölunnar en þær að eitt nýtt félag muni koma inn í Úrvalsvísitöluna í stað Samherja. Önnur félög sem nú mynda Úrvalsvísitöluna verða því væntanlega áfram hluti af henni.

"Líklegasta félagið inn í Úrvalsvísitöluna er Jarðboranir þar sem samkvæmt þessari könnun uppfyllir félagið bæði skilyrði um verðbil og að tilboð séu til staðar og kemur því inn stað stærra félags sem ekki kemur til greina þar sem það stenst ekki skilyrði um verðbil," segir í MP Molum.