Það eru ekki bara íslensk fyrirtæki og fjárfestar sem hafa verið í útrás að undanförnu heldur hafa íslenskir lífeyrissjóðir einnig verið að færa þungamiðju eigna sinna frá Íslandi. Rökin á bak við þá stefnu þeirra er aukin áhættudreifing en einnig má segja að aðstæður hér á landi hafi að einhverju leyti neytt sjóðina til að leita fyrir sér erlendis. Þannig vilja sumir halda því fram að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé orðið of stórt fyrir íslenskan verðbréfamarkað. Það er of stórt í þeirri merkingu að eignir lífeyrissjóðanna eru orðnar meiri en íslenski verðbréfamarkaðurinn getur ávaxtað með góðu móti.

Í grein eftir Guðmund Guðmundsson og Kristíönu Baldursdóttur, starfsmenn Seðlabankans, sem birtist í nýjustu Peningamálum bankans kemur fram að samkvæmt framreikningi þeirra munu eignir íslenskra lífeyrissjóða tvöfaldast á næstu 10 árum og verða um 2.000 milljarðar króna árið 2015. Í greininni segir að á næstu 10 árum þurfi íslenskir lífeyrissjóðir því að koma fyrir um 1.000 milljörðum króna miðað við núverandi verðlag, eða nálægt landsframleiðslu eins árs, til viðbótar við þær eignir sem fyrir eru. Til samanburðar má nefna að olíusjóður Norðmanna er um 60% af landsframleiðslu þeirra. "Vegna takmarkaðra möguleika til fjárfestinga hér á landi munu íslenskir lífeyrissjóðir þurfa í auknum mæli að sækja ávöxtun fjármagnsins til annarra landa," segir í greininni.

Fréttaskýring í Viðskiptablaðinu í dag.