Kuldakastið núna í nóvember setur strik í reikninginn í mörgum þáttum virkjunarframkvæmdanna við Kárahnjúka. Frost og steypuvinna fara til dæmis afar illa saman, sem hægir á verkum hér og þar. Arnarfell frá Akureyri stefndi að því að byrja í síðustu viku að sprengja fyrir göngum úr væntanlegu Ufsarlóni í Jökulsá í Fljótsdal en vetrarhörkurnar komu í veg fyrir það.

Borvélar númer 2 og 3 voru á þokkalegu skriði en hægar gekk hjá vél nr. 1. Ástæðan er meðal annars sú að framleiðsla sprautusteypu til bergstyrkingar liggur niðri í miklum kulda.

Lítið bættist við af fyllingarefni í Kárahnjúkastíflu vegna veðurs og svo hins að lítið rými er þar orðið eftir til að fylla þar til svokallaður táveggur mannvirkisins er tilbúinn.

Sprengingum og greftri í stöðvarhúshellinum í Fljótsdal var fram haldið með tilheyrandi bergstyrkingu. Möl var borin ofan í akbrautina um strengjagöngin og steypuvinna var í gangi þar við útimunnann og í spennahellinum í fjallinu.

Langt er komið að hreinsa og styrkja berg í síðari fallgöngunum til undirbúnings næsta verkþætti þar: stálfóðringum sem Slippstöðin á Akureyri annast.

Byggt á frétt á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar.