Verðbólga mældist 3,7% í ágúst samkvæmt vísitölu neysluverðs sem er örlítil hækkun frá júlímánuði þegar hækkun verðlags á ársgrundvelli mældist 3,6%. Verðbólgan er þó lægri en hún var í júní þegar hún var 3,9%. Síðustu fjóra mánuði hefur 12 mánaða hækkun verðlags verið að meðaltali 3,6% og þarf að leita aftur til vormánaða 2002 til að finna jafn háa verðbólgu en á þeim tíma tókst að ráða niðurlögum verðbólguskotsins sem kom í kjölfar falls krónunnar seint á árinu 2001.

Vísitalan var óbreytt milli júlí og ágúst sem er lítillega undir væntingum greiningardeilda bankanna en þau höfðu spáð 0,02% hækkun milli mánaða.

Verðhækkun á húsnæðis undanfarna 12 mánuði er 2,9% og hefur farið ört vaxandi á síðustu mánuðum en hún mældist einungis 1,1% að meðaltali fyrstu fjóra mánuði ársins. Verðhækkanir síðustu þrjá mánuði hafa verið litlar og jafngilda þær einungis 1,2% verðbólgu á ársgrundvelli.