Verðbólga á evrusvæðinu hefur ekki verið lægri síðan árið 1997. Verðbólgan  mældist 0,6% í aprílmánuði síðastliðnum og verðlag hækkaði ekkert í maímánuði.

Margir sérfræðingar búast við verðhjöðnun í sumar á evrusvæðinu en innan þess eru 16 þjóðir.

Á sama tíma berast þær fréttir að 0,5% aukning hafi orðið í smásölu Þýskalandi í aprílmánuði eftir mikla niðursveiflu í framleiðslu á fyrsta fjórðungi ársins. Þýskaland er stærsta efnahagsheildin í Evrópu og binda sumir sérfræðingar vonir við þessi batamerki.

Minni bjartsýni ríkir um þróunina í öðrum löndum evrusvæðisins og gera sérfræðingar ráð fyrir verðhjöðnun strax nú í júní. Verðhjöðnun er talin skaðleg fyrir efnahagslífið því við slíkar aðstæður hafa neytendur tilhneigingu til að bíða með að versla þar til verð lækkar enn meira. Það hefur í för með sér að framleiðsla dregst saman.

Frá þessu er skýrt á fréttavef BBC.