Verðbólga neysluverðs á evrusvæðinu mun haldast í 2,5% í júlímánuði, þriðja mánuðinn í röð, segir í bráðabirgðaspá greiningarfyrirtæki Evrópusambandsins, Eurostat.

Greiningaraðilar höfðu spáð sömu niðurstöðum og rennir það stoðum undir spár markaðsaðila um að evrópski seðlabankinn muni hækka stýrivexti upp í 3% á næsta fundi framkvæmdarstjórnar bankans, sem er á morgun, fimmtudag, en stýrivextir bankans eru nú 2,75%.

Bráðabirgðaspár Eurostat gera ekki grein fyrir verði á vörum og þjónustu sem hækkar hve hraðast, en líklegt er talið að orkuverð sé enn og aftur ástæða þess að verðbólgan er yfir markmiði evrópska seðlabankans, sem er 2%.

Seðlabankinn mun líklegast hafa nokkrar áhyggjur af því að hækkandi orkuverð muni leiða til hækkandi launakrafna og verðhækkana á vörum og þjónustu, segir í fréttinni.

Eurostat mun birta heildarskýrslu júlímánaðar 17. ágúst næstkomandi og ríkir talsverð eftirvænting að sjá hvort verði aukning á verðbólgu sem tekur ekki til orkuverðs, segir í fréttinni.