Verðbólga á Íslandi var 2% í mars samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem ætluð er til samanburðar á milli landa, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Verðbólga var 2,1% að jafnaði í ríkjum EES og 2,3% að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands, segir greiningardeildin og bendir á að hér á landi hafi verið minni verðbólga en í ríkjum EES ef miðast er við þennan mælikvarða.

?Nú dregur úr þessum mun og sennilega mun verðbólgan reynast meiri hér á landi á næstu misserum en í helstu viðskiptalöndum. Ástæðan er undirliggjandi verðbólguþrýstingur og gengislækkun krónunnar," segir greiningardeildin.

Ef miðað er við vísitölu neysluverð, sem er hið almenna viðmið hér á landi, var verðbólgan í mars 4,5%. Munurinn skýrist að mestu vegna þróunar íbúðaverðs en það er ekki tekið mið af því í samræmdu vísitölunni.

Miklar hækkanir hafi þó einnig einkennt viðskiptalönd okkar en hækkanirnar koma ekki fram í verðbólgutölum þeirra. Það verður að hafa í huga við samanburð á verðbólgu hér á landi og erlendis, að sögn greiningardeildarinnar.

Mesta verðbólga á Evrópska efnahagssvæðinu var 6,6% í Lettlandi, 4,3% í Slóvakíu og 4,5% í Eistlandi. Minnst var verðbólgan 0,9% í Póllandi, 1,2% í Finnlandi og 1,3% í Austurríki.