Verðbólga í þeim 15 löndum sem tilheyra evrusvæðinu jókst í mars og er nú 3,5% á ársgrundvelli samkvæmt bráðabirgðatölum evrópsku hagstofunnar sem birtar voru í morgun, samanborið við 3,3% ársverðbólgu í febrúar. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Verðbólgan var heldur meiri en búist var við, en samkvæmt meðalspá greiningaraðila í könnun Bloomberg var búist við óbreyttri verðbólgu á milli mánaða.

Þá hefur verðbólga á evrusvæðinu aldrei mælst meiri. Verðbólga hefur nú verið yfir 2% verðbólguviðmiði Seðlabanka Evrópu frá haustmánuðum liðins árs og hefur bankinn haldið stýrivöxtum sínum óbreyttum í 4,0% af þeim sökum á meðan stýrivextir hafa farið lækkandi í Bretlandi og í Bandaríkjunum.