Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 0,3% í júní samkvæmt tölum sem voru birtar á föstudaginn. Kjarnavísitalan, sem er vísitalan án matar- og orkuverða, hækkaði minna eða um 0,1%. Hækkunin var minni en markaðsaðilar höfðu vænst og skýrist m.a. af minni hækkunum á mat og bensíni en ráð var fyrir gert.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að tólf mánaða breyting vísitölunnar mælist nú 3,3% sem er mesta verðbólga sem mælst hefur síðan í maí 2001. Þessi mikla hækkun er að miklu leyti tilkomin vegna hás orkuverðs, en kjarnavísitalan hefur þó hækkað um 1,9% undanfarna tólf mánuði og hefur ekki verið jafn mikil síðan í janúar 2003.

Samkvæmt könnun Bloomberg búast sérfræðingar við að vextir verði hækkaðir á næsta vaxtaákvörðunarfundi seðlabanka Bandaríkjanna sem verður haldinn 10. ágúst næstkomandi. Stýrivextir bankans eru nú 1,25%.