Vísitala neysluverðs í Bretlandi hækkaði um 2,5% í febrúar á ársgrundvelli, en hún var 2,2% í janúar. Samkvæmt greiningardeild Landsbankans var mánaðarbreyting vísitölunnar 0,7% og er það mesta hækkun síðan í maí 2001.

Mestu munar um hærra húsnæðisverð sem og hærra verð á gasi og rafmagni. Hluti hækkunarinnar sem mælist í febrúar er þó til kominn vegna breyttrar aðferðar við mælingu hennar, en þessar breyttu aðferðir gera það að verkum að hluti verðhækkana undanfarinna fjögurra mánaða er innifalinn í febrúartölunum.

Englandsbanki hefur að undanförnu barist við vaxandi verðbólguvæntingar en frá því greinir í vegvísi Landsbankans að búist sé við áframhaldandi hækkun á vísitölu neysluverðs á næstunni og að hún verði jafn vel yfir 3% á ársgrundvelli, einu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði Englandsbanka.