Verðbólga hefur aukist í Bretlandi og er nú 2,3% en það er meiri verðbólga en mælst hefur þar í landi á síðustu átta árum. Hækkandi olíuverð er helsta orsök aukins verðbólguþrýstings í hagkerfinu og virðist takmarka svigrúm Englandsbanka til vaxtalækkunar. Íbúðaverð í London hefur lækkað síðustu mánuðina og nemur lækkunin um 2,4% í júní sé miðað við sama tíma í fyrra. Nýbyggingar í borginni hafa lækkað margfalt meira í verði eða um 24% á árinu en íbúðaverð utan London hefur hækkað um 3,7% á árinu segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þróun íbúðaverðs í höfuðborginni hefur almennt verið talin fyrirboði um þróun íbúðaverðs á landinu öllu, en það gæti táknað að lækkun sé framundan. Óttast er að lækkun íbúðaverðs muni leiða til minni hagvaxtar og meðal annars í því ljósi hefur Englandsbanki lækkað vexti sína niður um 0,25 prósentustig eða í 4,5%. Hagvöxtur hefur þegar minnkað í Bretlandi en á öðrum ársfjórðungi var vöxturinn 1,7% miðað við 2,1% á þeim fyrsta. Hagvöxtur hefur ekki reynst minni í Bretlandi í tólf ár.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.