Verðbólga í Kína jókst úr 8,3% í mars í 8,5% í apríl, þrátt fyrir að stjórnvöld þar í landi hafi tilkynnt að það að stemma stigu við verðbólgunni væri forgangsverkefni. Matarverð í apríl var 22,1% hærra í Kína en á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt frétt BBC um málið eykur vaxandi verðbólga áhyggjur um að hagkerfi Kína sé að ofhitna.

Þrátt fyrir yfirlýsingu stjórnvalda um að þau ætli sér að reka strangari peningamálastefnu í baráttunni gegn verðbólgu hafa stýrivextir ekki verið hækkaðir á þessu ári. Þeir voru hins vegar hækkaðir sex sinnum árið 2007. Í staðinn hefur bönkum nú verið sagt að auka peningamagn sem þeir geyma í varasjóðum sínum og halda lánveitingum í lágmarki.