Seðlabankastjóri Japan segir að hagvöxtur sé að aukast þar í landi og að verbólga sé sennilega framundan í japanska hagkerfinu, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Gengi japanska jensins hefur hækkað gagnvart helstu myntum í kjölfar ummæla seðlabankastjórans, segir í frétt greiningardeildarinnar.

Japanska hagkerfið hefur einkennst af verðhjöðnun síðustu sjö árin. Í frétt greiningardeildarinnar segir að lóðaverð í Tokyo sé til dæmis tekið að hækka á ný eftir lækkun í meira en áratug og þrýstingur til launahækkunar í landinu virðist fara vaxandi.

Seðlabanki Japans mun þó halda vöxtum í lágmarki, samkvæmt seðlabankastjóranum, eða þar til verðbólga er orðin staðreynd og bankinn getur fullvissað sig um að frekari verðhjöðnun muni ekki eiga sér stað. Hagvöxtur í Japan reyndist aðeins 1,3% á fyrsta ársfjórðungi, atvinnuleysi í landinu er 4,2% af mannafla og verðlag hefur lækkað um 0,5% á síðustu tólf mánuðum.