Englandsbanki sagði í gær að verðbólga myndi fara upp fyrir 3% og líklega haldast þar til skemmri tíma, að minnsta kosti út þetta ár. Í ársfjórðungslegri verðbólguskýrslu Peningamálanefndar bankans kom jafnframt fram að það væru verulegar líkur á því að verðbólgan gæti farið tímabundið yfir 4%.

Á fjölmiðlafundi sem haldin var í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði Mervyn King, seðlabankastjóri, að bankinn þyrfti að sýna „þolinmæði" þegar kæmi að því verkefni að ná verðbólgu aftur niður.

Verðbólgutölur á þriðjudaginn sýndu að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 3% í aprílmánuði.

Sumir sérfræðingar hafa velt því upp - í ljósi viðvarandi verðbólguþrýstings sökum hækkandi matar- og orkuverðs - að stjórnvöld muni breyta 2% verðbólgumarkmiði Englandsbanka. King sagði hins vegar að slík breyting myndi ekki hjálpa neitt í baráttunni gegn verðbólgu.