Tólf mánaða vísitala neysluverðs hjá aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hækkaði í 2,8% í október, borið saman við 2,2% í síðastliðnum september. Á mánaðargrundvelli hækkaði verðlag innan OECD um 0,3% í október, sem er jafn mikil hækkun og í septembermánuði.

Tólf mánaða vísitala neysluverðs á Íslandi mældist 4,5%, samkvæmt nýjum hagtölum OECD. Það er aðeins í Tyrklandi, Ungverjalandi og Írlandi, sem verðbólga mælist hærri á meðal aðildarríkja OECD. Mest mældist verðbólgan í Tyrklandi, eða 7,7% á síðustu tólf mánuðum.

Í Bandaríkjunum hækkaði tólf mánaða vísitala neysluverðs um 3,5% í október, borið saman við 2,8% hækkun í september. Í Japan nam hækkunin hins vegar 0,3%, eftir að tólf mánaða vísitala neysluverðs hafði lækkað um 0,2% í september. Verðbólga jókst um 2,4% á síðustu tólf mánuðum fram til október á þessu ári, í Kanada og Þýskalandi. Í Bretlandi og Ítalíu hækkaði hún um 2,1% og í Frakklandi jókst hún um 2%.

Vísitala orkuverðs hækkaði um 8,5% á ársgrundvelli í október, borið saman við 3,4% hækkun í september. Vísitala matarverðs hækkaði hins vegar um 4,1% á ársgrundvelli í síðasta mánuði, samanborið við 3,5% hækkun í september. Ef orku- og matarverð er undanskilið, þá hækkaði tólf mánaða vísitala neysluverðs um 1,9% í október, sem er óbreytt hækkun frá því í september.