Ársverðbólga í Bretlandi var óbreytt í nóvember í 2,1% samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu Bretlands. Í Morgunkorni Glitnis er vitnað í könnun Reuters meðal greiningaraðila þar sem segir að verðbólgan hafi verið undir væntingum en búist var við 2,2% verðbólgu.

Englandsbanki er á 2% verðbólgumarkmiði og lækkaði breska pundið eftir birtingu verðbólgutalnanna þar sem markaðsaðilar telja nú vera aukið svigrúm til frekari vaxtalækkana. Stýrivextir Englandsbanka eru nú 5,5% og lækkaði bankinn vextina fyrr í þessum mánuði um 0,25 prósentustig vegna versandi hagvaxtarhorfa.

Í Morgunkorninu segir að neysluverð í Bretlandi hafi hækkað um 0,3% í nóvember á milli mánaða en hækkunina má einkum rekja til hækkandi eldsneytisverðs. Á móti vegur lækkun á veitureikningum sem er þó líklega skammvinn vegna nýtilkominna verðskrárhækkana breskra orkufyrirtækja og hækkandi olíuverðs síðustu vikur. Kjarnaverðbólga, þar sem undan eru skildir sveiflukenndir liðir auk orkuverðs, var 1,4% á ársgrundvelli í nóvember og hefur ekki verið lægri í eitt ár.