Greiningaraðilar eru á einu máli um að verðbólga nái hámarki nú í ágúst og muni hjaðna þegar líða tekur á haustið.

Spá Seðlabankans frá því í byrjun júlí hljóðar upp á 13,3% verðbólgu á yfirstandandi ársfjórðungi en nú þegar bendir flest til þess að verðhækkanir hafi verið vanmetnar í þeirri spá.

Síðustu verðbólgutölur frá lokum júlí voru töluvert yfir væntingum greinenda en neysluvísitalan hafði þá hækkað um 13,6% á síðustu 12 mánuðum. Greiningadeildir viðskiptabankanna þriggja hafa birt verðbólguspár sínar fyrir ágústmánuð og hljóða spárnar upp á töluvert meiri verðbólgu en Seðlabankinn reiknaði með.

Greiningardeildir Glitnis og Kaupþings spái því að vísitala neysluverðs hækki um 1,1% frá fyrri mánuði sem þýðir að ársverðbólga muni mælast tæp 14,8% í ágúst. Spá Landsbankans er eilítið lægri og hljóðar upp á 1% hækkun verðlags í ágúst, sem jafngildir að 12 mánaða verðbólga verði 14,7%.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .