Kjarnavísitala vísitölu neysluverðs í Japan hækkaði minna en spáð hafði verið fyrir í júlí og hafa væntingar minnkað um að japanski seðlabankinn hækki vexti í annað sinn á þessu ári, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Vísitalan, sem telur ekki til ferskar matvörur, hækkaði um 0,2% í júlí frá sama tíma árið 2005, en það er langt undir þeirri 0,5% hækkun sem gert var ráð fyrir. Jenið féll í kjölfarið gagnvart helstu gjaldmiðlum.

Nýbirtar tölur um verðbólgu eru þær fyrstu eftir að ríkisstjórnin breytti grunni fyrir útreikning vísitölunnar í þeim tilgangi að endurspegla betur neyslu í hagkerfinu. Breytingin gerði það að verkum að verðbólga mældist nú 0,5% lægri en hingað til hefur verið talið. Seðlabankastjórinn í Japan, Toshihiko Fukui, sagði að þessi breyting hefði ekki áhrif á þá skoðun bankans að verðlag sé nú tekið að hækka eftir sjö ára verðhjöðnunartímabil, sagði greiningardeildin.

Sérfræðingar eru ósammála um þýðingu þessa fyrir bankann. Sumir telja að tölurnar séu merki um að bankinn hafi verðið of fljótur á sér að hækka vexti og skera á aukningu peningamagns í umferð. Aðrir telja þá staðreynd skipta mestu að þrátt fyrir að ýmsir þættir hafi verið teknir inn í vísitöluna nú sem dragi hana niður sé verðbólga enn til staðar. Skiptar skoðanir eru meðal fjárfesta um hvort næsta vaxtahækkun bankans verði á þessu ári eða því næsta þótt fleiri hallist nú að því að síðarnefnda, sagði greiningardeildin.